Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 145 . mál.


166. Frumvarp til lánsfjárlaga



fyrir árið 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI

Lántökur ríkissjóðs.

1. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka að láni allt að 15.800 m.kr. á árinu 1993.

2. gr.

    Lánsfé skv. 1. gr. skal ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1993 og þessara laga.

3. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt að endurlána allt að 6.230 m.kr. af fjárhæð skv. 1. gr. til eftirtalinna aðila:
    Lánasjóður íslenskra námsmanna, allt að 3.540 m.kr.
    Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar, allt að 1.300 m.kr.
    Póst- og símamálastofnun, allt að 1.100 m.kr.
    Alþjóðaflugþjónustan, allt að 290 m.kr.

II. KAFLI

Ríkisábyrgðir.

4. gr.

    Eftirtöldum aðilum, sem heimild hafa í sérlögum til lántöku, er heimilt að nýta þær á árinu 1993 með þeim takmörkunum sem tilgreindar eru í 1.–9. tölul. þessarar greinar, sbr. 13. gr. laga nr. 84/1985, um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga:
    Landsvirkjun, allt að 7.450 m.kr., sbr. 14. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með áorðnum breytingum.
    Byggingarsjóður ríkisins, allt að 2.290 m.kr., sbr. 9. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
    Byggingarsjóður verkamanna, allt að 6.691 m.kr., sbr. 64. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
    Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins, allt að 12.000 m.kr., sbr. 35. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
    Stofnlánadeild landbúnaðarins, allt að 700 m.kr., sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með áorðnum breytingum.
    Byggðastofnun, allt að 650 m.kr., sbr. 18. gr. laga nr. 64/1985, um Byggðastofnun, með áorðnum breytingum.
    Iðnlánasjóður, allt að 2.300 m.kr., sbr. 6., 10. og 17. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, með áorðnum breytingum.
    Iðnþróunarsjóður, allt að 700 m.kr., sbr. 2. tölul. stofnsamnings um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland og lög nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, með áorðnum breytingum.
    Ferðamálasjóður, allt að 130 m.kr., sbr. 27. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, með áorðnum breytingum.

5. gr.

    
    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántökur eftirtalinna aðila á árinu 1993:
    Vatnsleysustrandarhreppur, allt að 55 m.kr. til undirbúningsrannsókna við Flekkuvíkurhöfn.
    Norræni fjárfestingarbankinn, allt að 22 m.kr. til Norrænu fjárfestingaráætlunarinnar fyrir Eystrasaltsríkin.
    Bæjarveitur Vestmannaeyja, allt að 12 m.kr. til skuldbreytingar eldri lána.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði um lánsfjármál.

6. gr.

    Lántökur samkvæmt lögum þessum skulu fara fram innan lands eða utan eins og kemur fram í viðauka með lögum þessum. Útgáfa markaðsverðbréfa á Íslandi skal ávallt teljast til innlendrar lántöku.
    Standi sérstaklega á er fjármálaráðherra heimilt að víkja frá skiptingu skv. 1. mgr. um lántökur ríkissjóðs og að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabanka Íslands.

7. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs getur heimilað þeim aðilum sem njóta ríkis-ábyrgðar á lántökum sínum:
    að taka lán í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar eldri lána þegar hagstæðari kjör bjóðast;
    að stofna til skulda- og vaxtaskipta og nýta aðra möguleika sem bjóðast á markaði til þess að tryggja viðkomandi aðila gegn verulegum vaxtabreytingum;
    að taka ný lán til endurgreiðslu skammtímalána sem tekin voru á grundvelli heimilda í II. kafla, að hluta eða öllu leyti, án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.

8. gr.

    Hyggist aðilar, sem njóta ríkisábyrgðar á lántökum sínum, nýta heimildir II. kafla eða 7. gr. skulu þeir gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins.

9. gr.

    Yfirtekin lán, ábyrgðir veittar á lántökum þriðja aðila og milliganga um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytis, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, eða annarra heimilda veittum einstökum fyrirtækjum telst til lántöku og skal rúmast innan þeirra heimilda sem tilgreindar eru í II. kafla.


10. gr.

    Erlendar fjárhæðir skulu miðast við kaupgengi íslensku krónunnar samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi lánsfjárlaga.

IV. KAFLI

Ráðstafanir vegna fjárlaga 1993.

11. gr.

    Framlög ríkissjóðs samkvæmt eftirtöldum lögum og lagaákvæðum skulu ákveðin í fjárlögum 1993:
    1. tölul. 3. gr. laga nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins, með áorðnum breytingum.
    3. gr. laga nr. 50/1957, um menningarsjóð, með áorðnum breytingum.
    22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, með áorðnum breytingum.
    46. gr. og 49. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, með áorðnum breytingum.
    1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 84/1989, um búfjárrækt, með áorðnum breytingum.
    Jarðræktarlög nr. 56/1987, með áorðnum breytingum.
    D-lið 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, með áorðnum breytingum.
    2. gr. laga nr. 21/1981, um kirkjubyggingasjóð, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, með áorðnum breytingum.
    36. gr. laga nr. 67/1971, almannatryggingalaga, með áorðnum breytingum.
    17. gr. laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, með áorðnum breytingum.
    42. gr. laga nr. 108/1984, lyfjalaga, með áorðnum breytingum.
    1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984 um Hafnabótasjóð, með áorðnum breytingum.
    8. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, með áorðnum breytingum.
    2. málsl. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breyt-ingum.
    2. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, með áorðnum breytingum.
    13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, með áorðnum breytingum.
    75. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.
    5. mgr. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með áorðnum breytingum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með áorðnum breytingum.

V. KAFLI

Gildistökuákvæði.

12. gr.

    Lántökuheimildir og heimildir til ríkisábyrgða, sem tilgreindar eru í I.–III. kafla laga þessara, gilda á árinu 1993. Heimildir verða þó nýttar til 1. apríl 1994 standi sérstaklega á og samþykki fjármálaráðherra komi til.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Viðauki.


Heimilaðar innlendar og erlendar lántökur hins opinbera 1993.




Innlend

Erlend

Heildar-


Í milljónum króna

lántaka

lántaka

lántökur



Ríkissjóður Íslands     
10.700
5.100 15.800
Landsvirkjun     
-
7.450 7.450
Byggingarsjóður ríkisins     
2.290
- 2.290
Byggingarsjóður verkamanna     
6.691
- 6.691
Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins     
12.000
- 12.000
Stofnlánadeild landbúnaðarins     
400
300 700
Byggðastofnun     
100
550 650
Iðnlánasjóður     
100
2.200 2.300
Iðnþróunarsjóður     
100
600 700
Fiskveiðasjóður     
-
2.500 2.500
Ferðamálasjóður     
-
130 130
Vatnsleysustrandarhreppur     
-
55 55
Bæjarveitur Vestmannaeyja     
-
12 12
Norræni fjárfestingarbankinn     
-
22 22
Samtals     
32.381
18.919 51.300


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til lánsfjárlaga 1993 nær til allra lána sem ríkissjóður hyggst taka eða ábyrgjast á árinu 1993. Þannig næst heildarsýn yfir ríkisábyrgðir á einum vettvangi.
    Helsta nýmæli þessa frumvarps er að í viðauka, sem birtist með lagatexta, kemur fram hvernig ráðgert er að skipta lántökum einstakra aðila milli innlendra og erlendra markaða. Þó segir að fjármálaráðherra sé heimilt að víkja frá þeirri skiptingu hvað varðar ríkissjóð enda standi sérstaklega á og að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabanka Íslands. Tvær meginástæður liggja hér að baki. Í fyrsta lagi er stefnt að því að taka fyrir yfirdrátt ríkissjóðs í Seðlabankanum um næstu áramót. Þannig þyrfti ríkissjóður strax á næsta ári að mæta allri lánsfjárþörf sinni á markaði. Mikilvægt er að sú breyting valdi ekki óæskilegum sveiflum á peningamarkaði. Í öðru lagi taka gildi um næstu áramót nýjar reglur um fjármagnsflutninga og þykir ástæða til að hafa þetta svigrúm verði verulegt fjárstreymi úr landinu.
    Þá er í frumvarpinu ákvæði þess efnis að lögbundin framlög til ýmissa aðila og verkefna skuli ákveðin í fjárlögum 1993.
    Hér á eftir verður fjallað um innlendan lánamarkað og heildarlánsfjárþörf hins opinbera. Þá er greint ítarlega frá lánsfjárþörf og lánsfjáröflun ríkissjóðs. Loks er fjallað um efnisinnihald hverrar greinar frumvarpsins.

Innlendur lánamarkaður.
    Jafnvægi á lánamarkaði á þessu ári hefur verið betra en á undanförnum tveimur árum. Ástæða þess er að verulega hefur dregið úr lánsfjáreftirspurn. Minni ásókn í lánsfé ætti að öðru jöfnu að leiða til lækkunar raunvaxta, jafnvel þó að horfur séu á að peningalegur sparnaður verði ívið minni 1992 en á árinu 1991. Þessara áhrifa gætti á fyrri hluta ársins og fóru raunvextir þá lækkandi. Á síðustu mánuðum hafa raunvextir sveiflast á verðbréfamarkaði en það er fremur talið endurspegla veikleika hans en breytingar á framboði og eftirspurn. Á síðustu vikum hafa raunvextir á verðtryggðum skuldbindingum þó heldur þokast niður á við og sama gildir um vexti á óverðtryggðum skammtímabréfum.

     Lánsfjáreftirspurn er talin hafa aukist um 4,2%, eða 27 milljarða króna, á fyrri hluta árs 1992 í stað 12,9%, eða 68 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Lánsfjáreftirspurn hefur þannig dregist saman um 60%.

Lánsfjáreftirspurn innlendra aðila 1991–1992.




Hreyfing

Hreyfing


Árslok

Júnílok

jan.-jún.

jan.-jún.


Milljarðar króna á verðlagi í lok tímabils

1991

1992

1991

1992



Ríkissjóður og ríkisfyrirtæki      88
,3 94 ,4 20 ,3%
6 ,5%
Sveitarfélög      20
,5 20 ,0 -1 ,0%
-2 ,5%
Fyrirtæki      283
,1 288 ,4 10 ,7%
1 ,8%
Heimili      210
,9 226 ,7 14 ,6%
7 ,0%
Samtals      602
,8 629 ,5 12 ,9%
4 ,2%



    Lán til ríkisins jukust um 6,5% á fyrri hluta þessa árs saman borið við 20,3% á sama tíma í fyrra. Þetta sýnir glögglega þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum á árinu. Undanfarin ár og reyndar allan síðasta áratug hefur einnig verið mikil aukning á lánum til heimila. Nú virðist sem nokkuð sé að hægja á þeirri aukningu en lán til heimila jukust um 7,0% á fyrri helmingi þessa árs saman borið við 14,6% í fyrra. Lánsfjáreftirspurn fyrirtækja hefur dregist enn meira saman á síðustu þremur árum. Lán til þeirra jukust einungis um 1,8% á fyrri hluta árs 1992 saman borið við tæp 11% á sama tíma í fyrra. Sveitarfélög halda áfram að greiða niður skuldir sínar og drógust lán til þeirra saman um 2,5% á fyrri hluta ársins saman borið við 1% samdrátt á sama tímabili í fyrra. Minni lánsfjáreftirspurn skýrir mjög góða lausafjárstöðu bankakerfisins. Á yfirstandandi ári hefur hún batnað um 5,1 milljarð króna.

     Framboð lánsfjár. Peningalegar eignir námu 439 milljörðum króna í lok júní 1992 og höfðu aukist um 5,2% á árinu. Þar af voru kerfisbundnar eignir 231 milljarður króna, en það eru fyrst og fremst eignir lífeyrissjóðanna. Uppsafnaður frjáls sparnaður, einkum bankainnlán og markaðsverðbréf, nam 208 milljörðum króna.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Seðlabanka Íslands er talið að innlendur sparnaður verði um 34 milljarðar króna árið 1992, þar af kerfisbundinn sparnaður um 20 milljarðar króna, eða heldur meiri en á síðasta ári. Aukning frjáls sparnaðar verður hins vegar minni en á síðasta ári, eða 14 milljarðar króna.
    Áætlað er að heildarsparnaður verði um 36 milljarðar króna á árinu 1993 og verði 9,3% af landsframleiðslu. Reiknað er með að kerfisbundinn sparnaður verði um 19 milljarðar króna en sá frjálsi um 17 milljarðar króna. Rétt er að undirstrika að skekkjumörk við þessar áætlanir eru veruleg og því verður að skoða niðurstöðurnar með fyrirvara.

Áætlun um peningalegan sparnað 1991–1993.




Staða í árslok

Hrein aukning á meðalverðlagi



Áætlun

Spá

Áætlun

Spá



Milljarðar króna

1991

1992

1993

1991

1992

1993




Peningalegur sparnaður
418 461 503 37 34 36
    Frjáls
201 221 241 20 14 17
    Kerfisbundinn
216 240 262 17 20 19

Aukning peningalegs sparnaðar
sem hlutfall af landsframleiðslu
9,7% 8,9% 9,3%



Lánsfjárþörf hins opinbera.
    Lánsfjárþörf hins opinbera, eins og hún er hér skilgreind, breytist milli ára sem hér segir:


Lánsfjárþörf hins opinbera 1992 og 1993.




Áætlun 1992

Áætlun 1993




Milljarðar króna

Innlent

Erlent

Alls

Innlent

Erlent

Alls




Lántökur
33,7 18,6 52,3 32,1 20,1 52,2
Opinberir aðilar
11,9 12,0 23,9 10,7 13,6 24,3
Ríkissjóður A-hluti
11,9 7,5 19,4 10,7 5,1 15,8
Ríkisfyrirtæki
- 3,6 3,6 - 7,5 7,5
Sveitarfélög
- 0,9 0,9 - 1,0 1,0
Opinberar lánastofnanir
21,8 6,6 28,4 21,4 6,5 27,9
Byggingarsjóðir
9,2 - 9,2 8,8 - 8,8
Húsbréf
12,0 - 12,0 12,0 - 12,0
Aðrir
0,6 6,6 7,2 0,6 6,5 7,1

Afborganir
11,7 12,1 23,8 14,5 12,6 27,1
Opinberir aðilar
4,1 9,0 13,1 4,5 9,0 13,5
Ríkissjóður A-hluti
4,1 4,5 8,6 4,5 1,8 6,3
Ríkisfyrirtæki
- 3,9 3,9 - 6,7 6,7
Sveitarfélög
- 0,6 0,6 - 0,5 0,5
Opinberar lánastofnanir
7,6 3,1 10,7 10,0 3,6 13,6
Byggingarsjóðir
3,7 - 3,7 4,7 - 4,7
Húsbréf
1,0 - 1,0 2,0 - 2,0
Aðrir
2,9 3,1 6,0 3,3 3,6 6,9

Hrein lánsfjárþörf
22,0 6,5 28,5 17,6 7,5 25,1

Hlutfall af landsframleiðslu
5,7% 1,7% 7,4% 4,5% 1,9% 6,4%

    Heildarlántökur hins opinbera árið 1993 eru áætlaðar um 52 milljarðar króna og afborganir 27 milljarðar. Hrein lánsfjárþörf er þannig áætluð röskir 25 milljarðar króna eða um 3 milljörðum króna lægri en á þessu ári. Áformað er að afla 17,6 milljarða króna á innlendum markaði, nettó, en 7,5 milljarða króna erlendis. Á þessu ári nema hreinar lántökur innan lands 22 milljörðum króna og erlendar lántökur 6,5 milljörðum króna, nettó.
    Áætlað er að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nemi 9,5 milljörðum króna á næsta ári saman borið við 10,8 milljarða króna árið 1992. Halli ríkissjóðs lækkar um 2,9 milljarða króna milli ára en á móti vega auknar lánahreyfingar. Hrein lánsfjáreftirspurn húsnæðislánakerfisins, þ.e. byggingarsjóðir og húsbréfaútgáfa, er talin nema 14,1 milljarði króna á næsta ári saman borið við 16,5 milljarða í ár. Þessi lækkun milli ára stafar að langmestu leyti af hærri afborgunum á næsta ári auk þess sem nokkuð dregur úr lánveitingum sjóðanna. Lántökur Landsvirkjunar aukast verulega milli ára, aðallega vegna aukinna afborgana. Lánsfjárþörf fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna er svipuð á næsta ári og í ár svo og erlend lánsfjárþörf sveitarfélaga. Ekki er áætlað fyrir innlendri lánsfjárþörf sveitarfélaga. Ítarlega umfjöllun um lánsfjármál ríkissjóðs og annarra opinberra aðila er að finna síðar í þessari greinargerð.
    Á undanförnum árum hefur lánsfjárþörf hins opinbera aukist mjög mikið. Hér vegur þyngst lánsfjárþörf húsnæðislánakerfisins og ríkissjóðs. Á þessu ári hefur tekist að snúa þessari þróun við og er útlit fyrir að hrein lánsfjárþörf hins opinbera verði um 12 milljörðum króna minni á þessu ári en 1991. Á næsta ári er útlit fyrir að enn frekar dragi úr opinberri lánsfjárþörf eins og áður er komið fram. Eftirfarandi mynd sýnir þróun opinberrar lánsfjárþarfar á tímabilinu 1986-1993:

Hrein lánsfjárþörf hins opinbera.






Lánsfjárþörf ríkissjóðs.
    Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs er áætluð 15,8 milljarðar króna á árinu 1993. Greiddar afborganir af teknum lánum nema 6,3 milljörðum króna þannig að hrein lánsfjárþörf, þ.e. nýjar lántökur umfram afborganir af eldri lánum, er talin verða 9,5 milljarðar króna. Gangi þetta eftir hefur hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu lækkað um tæp 40% frá árinu 1991, eða úr 3,9% í 2,4%. Eftirfarandi yfirlit sýnir lánsfjárþörf ríkissjóðs 1992 og 1993 og skiptingu hennar:

Áætlun

Frumvarp


1992

1993


Greiðslugrunnur

m.kr.

m.kr.



Rekstrarhalli ríkissjóðs     
9.100
6.200
Veitt lán, nettó     
1.790
3.030
Eignfærð framlög     
280
370
Viðskiptareikningar     
-400
-100

Hrein lánsfjárþörf     
10.770
9.500

Afborganir af teknum lánum     
8.585
6.300

Heildarlánsfjárþörf     
19.355
15.800


    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir hvernig lánsfjárþörf ríkissjóðs er saman sett.

     Veitt lán, nettó. Þessi liður sýnir hreyfingar á veittum lánum ríkissjóðs til lengri tíma en eins árs, þ.e. veitt ný lán að frádregnum afborgunum af eldri lánum. Á árinu 1993 er ráðgert að veita ný lán að fjárhæð 6.230 m.kr. til fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkissjóðs. Á móti koma innheimtar afborganir af eldri lánum sem eru áætlaðar samtals 3.200 m.kr. Veitt lán A-hluta ríkissjóðs, nettó, nema því samtals 3.030 m.kr. á árinu 1993. Eftirfarandi yfirlit sýnir nánari sundurliðun á hreyfingum veittra lána:

Áætlun

Frumvarp


1992

1993


Greiðslugrunnur

m.kr.

m.kr.



Veitt ný lán     
5.840
6.230
 Lánasjóður íslenskra námsmanna     
2.815
3.540
 Alþjóðaflugþjónustan     
480
290
 Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar     
1.150
1.300
 Póst- og símamálastofnun     
-
1.100
 Annað, sbr. 8. gr. lánsfjárlaga     
1.395
-

Innheimtar afborganir af eldri lánum     
4.050
3.200
 Bundnar innlendu verðlagi     
2.850
2.200
 Bundnar erlendum gjaldmiðlum     
1.200
1.000

Veitt lán, nettó     
1.790
3.030


     Eignfærð framlög. Hér er átt við stofnframlög ríkisins til alþjóðafjármálastofnana og til kaupa á hlutabréfum í innlendum fyrirtækjum, en báðir þessir liðir eru færðir í efnahagsreikning ríkissjóðs. Eignfærð framlög eru áætluð samtals 370 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 280 m.kr. árið 1992. Aukning milli ára stafar aðallega af nýjum hlutafjárframlögum annars vegar til fyrirtækis sem tekur við hluta af starfsemi Ríkismats sjávarafurða og hins vegar til Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri. Framlagið til Slippstöðvarinnar er háð sameiningu fyrirtækja og fjárhagslegri endurskipulagningu þar sem Akureyrarbær og hið sameinaða fyrirtæki leggja fram hvort um sig 30 milljónir króna í nýju hlutafé. Þá er nú veitt framlag til Norrænnar fjárfestingaráætlunar fyrir Eystrasaltsríkin í samræmi við ákvörðun fjármálaráðherra Norðurlanda frá því í sumar. Framlag til Alþjóðaþróunarfélagsins er vegna svokallaðrar IDA-9 áætlunar og er það lokagreiðsla. Framlag til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er vegna svokallaðrar ESAF-deildar.

Áætlun

Frumvarp


1992

1993


Greiðslugrunnur

m.kr.

m.kr.



Alþjóðabankinn, IBRD, Washington, DC     
31
22
Alþjóðaþróunarfélagið, IDA, Washington, DC     
109
107
Evrópubankinn, EBRD, London     
49
48
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF, Washington, DC     
25
32
Norræni þróunarsjóðurinn, NDF, Kaupmannahöfn     
15
22
Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið, NEFCO, Helsinki     
6
6
Lánasjóður Vestur-Norðurlanda, Reykjavík     
3
3
Norræn fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin     
-
11
Hlutafélag sem tekur við hluta af starfsemi Ríkismats sjávarafurða     
-
25
Slippstöðin hf., Akureyri     
-
30
Annað          
42
64
Samtals     
280
370     


     Viðskiptareikningar. Þessir reikningar taka til ýmissa skuldaviðurkenninga til skamms tíma vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu af launum, tryggingagjalds o.fl. Áætlað er að útstreymi umfram innstreymi á almennum viðskiptareikningum nemi 500 m.kr. á árinu 1993. Á móti vegur 600 m.kr. greiðsla frá Byggingarsjóði ríkisins. Hér er um að ræða 1.500 m.kr. lán sem ríkissjóður veitti sjóðnum á árinu 1991 til uppgjörs á skuld hans við Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að 900 m.kr. greiðist í ár og 600 m.kr. lokagreiðsla verði á næsta ári. Í heild verður því innstreymi umfram útstreymi á viðskiptareikningum ríkissjóðs 100 m.kr. á árinu 1993.

     Greiddar afborganir af teknum lánum. Greiddar afborganir af teknum lánum ríkissjóðs eru áætlaðar 6,3 milljarðar króna árið 1993 saman borið við 8,6 milljarða króna á þessu ári. Afborganir af erlendum lánum eru áætlaðar um 1,8 milljarðar króna í stað 4,5 milljarða króna á árinu 1992, en þýskt lán að fjárhæð 75 milljónir marka kom til greiðslu á þessu ári. Innlausn spariskírteina hækkar milli ára en hún var með allra minnsta móti í ár. Afborganir af öðrum innlendum lánum lækka verulega milli ára. Hér vegur þyngst að á þessu ári kemur til lokagreiðslu vegna yfirtekinna skulda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Eftirfarandi yfirlit sýnir áætlun um greiddar afborganir ríkissjóðs af lánum á árunum 1992 og 1993:

Áætlun

Frumvarp


1992

1993


Greiðslugrunnur

m.kr.

m.kr.



Innlausn spariskírteina     
1.100
2.850
Önnur innlend lán     
2.985
1.650
Erlend lán     
4.500
1.800
Samtals     
8.585
6.300



Lánsfjáröflun ríkissjóðs.
    Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs 1993 nemur um 9,5 milljörðum króna. Miðað er við að lánsfjárþörf, sem svarar til áætlaðs halla ríkissjóðs, þ.e. 6,2 milljörðum króna, verði mætt á innlendum lánamarkaði. Þess sem eftir stendur, 3,3 milljarða króna, verður aflað með erlendu lánsfé. Tímasetning og skipting lántöku á innlendan og erlendan markað mun ráðast af aðstæðum.
    Í áætlun Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að peningalegur sparnaður á árinu 1993 verði um 36 milljarðar króna. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs nemur samkvæmt þessu 44% af innlendum sparnaði á næsta ári saman borið við 57% í ár. Heildarlántökur ríkissjóðs innan lands eru áætlaðar 10,7 milljarðar króna og nemur tæpum 30% af innlendum sparnaði saman borið við 35% í ár. Mismunurinn er fenginn með erlendri lántöku. Eftirfarandi mynd sýnir heildarlánsfjárþörf og heildarlántökur ríkissjóðs á innlendum markaði sem hlutfall af árlegri aukningu peningalegs sparnaðar á tímabilinu 1986–1993. Jafnframt er sýndur peningalegur sparnaður á þessu tímabili sem hlutfall af landsframleiðslu:

Innlendur sparnaður og lántökur ríkissjóðs.





     Samsetning lánsfjáröflunar. Á allra síðustu árum hefur hlutdeild skammtímabréfa, þ.e. ríkisvíxla og ríkisbréfa, aukist mjög í heildarlánsfjáröflun ríkissjóðs. Í september stóð stofn ríkisvíxla í 17,5 milljörðum króna og hafði aukist um rúma 9 milljarða króna frá áramótum. Til samanburðar má geta þess að stofninn var um 0,7 milljarðar króna í árslok 1988. Þá hafa ríkisbréf selst fyrir um 2,7 milljarða króna það sem af er árinu en þessi tegund verðbréfa kom fyrst á markað síðla árs 1990. Á sama tíma hefur útgáfa spariskírteina — einu langtímabréfa ríkissjóðs — dregist verulega saman og sala þeirra rétt hrokkið fyrir innlausn eldri spariskírteina. Þetta er óæskileg þróun þar sem skammtímabréfin kalla á stöðuga endurfjármögnun og stofn þeirra getur sveiflast niður á við með litlum fyrirvara og vaxtakjör gjörbreyst. Á seinasta ársfjórðungi 1991 voru t.d. leystir inn víxlar fyrir um 3 milljarða króna umfram sölu nýrra víxla á sama tímabili. Áhersla verður lögð á að auka hlutdeild langtímafjármögnunar í lánsfjáröflun ríkissjóðs.

     Vextir ákvarðaðir á markaði. Á miðju þessu ári ákvað fjármálaráðherra að vextir af ríkisverðbréfum skyldu framvegis ráðast í útboðum í stað þess að vera fyrir fram ákveðnir af stjórnvöldum. Með þessu er vaxtaákvörðun á ríkisverðbréfum færð til markaðarins og því stigið veigamikið skref frá beinum afskiptum af vaxtaákvörðun í landinu. Jafnframt er fjármagnsmarkaðurinn með þessu styrktur til þess að mæta aukinni samkeppni við innlend sem erlend verðbréf. Í þessum útboðum geta löggilt verðbréfafyrirtæki, löggiltir verðbréfamiðlarar og bankastofnanir gert tilboð í tiltekna upphæð verðbréfa með ákveðinni ávöxtunarkröfu. Fyrstu verðbréfin, sem seld voru samkvæmt þessu fyrirkomulagi, voru ríkisbréf. Ákveðið hefur verið að bjóða út ríkisvíxla frá og með október og stefnt er að útboðum spariskírteina innan tíðar.
    Fyrsta útboðið á ríkisbréfum fór fram 10. júní sl. og hafa þau verið haldin mánaðarlega síðan. Samtals hafa verið seld bréf fyrir um 2,7 milljarða króna og hafa vextir sem þau bera farið lækkandi. Eftirfarandi tafla sýnir helstu niðurstöður þessara útboða:


Heildar-

Tekin

Fjöldi

Meðal-


tilboð

Fjöldi

tilboð

tekinna

ávöxtun


Dagsetning útboðs

m.kr.

bjóðenda

m.kr.

boða

%



10. júní     
982
67 506 32 11 ,5
29. júní     
934
71 550 47 11 ,4
29. júlí     
968
83 550 63 11 ,1
26. ágúst     
848
73 550 54 11 ,1
29. september     
730
66 500 54 10 ,6

     Yfirdráttarheimild í Seðlabanka afnumin. Ríkissjóður hefur um langt árabil haft yfirdráttarheimild á viðskiptareikningi sínum í Seðlabanka Íslands til að mæta árstíðabundnum sveiflum í fjármálum ríkissjóðs. Heimild til yfirdráttar í Seðlabanka, þegar erfiðlega hefur gengið að afla lánsfjár innan lands, hefur sætt vaxandi gagnrýni enda talið valda þenslu á peningamarkaði. Fyrr á þessu ári ákvað fjármálaráðherra að hverfa sem fyrst frá þessu fyrirkomulagi. Því var gerður samningur milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka sem takmarkar aðgang ríkissjóðs að yfirdrætti í Seðlabankanum við 3 milljarða króna á þessu ári. Um næstu áramót er stefnt að því að taka fyrir yfirdrátt ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þannig kynni ríkissjóður strax á næsta ári að þurfa að mæta allri lánsfjárþörf sinni á markaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs er áætluð 15.800 m.kr. á árinu 1992. Þar af eru 6.200 m.kr. vegna halla ríkissjóðs, 6.300 m.kr. vegna afborgana af áður teknum lánum og 3.300 m.kr. vegna annarra lánahreyfinga. Nánari upplýsingar er að finna í kaflanum Lánsfjárþörf ríkissjóðs hér að framan.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Þessi grein heimilar fjármálaráðherra að endurlána til fjögurra aðila í B-hluta fjárlaga allt að 6.230 m.kr. af þeirri fjárhæð er kemur fram í 1. gr. frumvarpsins. Þeir eru:
     Lánasjóður íslenskra námsmanna. Gert er ráð fyrir að endurlána Lánasjóði íslenskra námsmanna allt að 3.540 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 2.815 m.kr. á árinu 1992.
     Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar. Gert er ráð fyrir að endurlána Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar allt að 1.300 m.kr. á árinu 1993 til þess að mæta misvægi á greiðslustreymi greiddra og innheimtra afborgana og vaxta.
     Póst- og símamálastofnun. Áformað er að endurlána Póst- og símamálastofnun alls 1.100 m.kr. á árinu 1993 vegna aðildar hennar að lagningu ljósleiðarastrengs yfir Norður-Atlantshafið.
     Alþjóðaflugþjónustan. Áætlað er að endurlána Alþjóðaflugþjónustunni allt að 290 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 480 m.kr. í ár. Hér er um að ræða fé til byggingar nýrrar flugstjórnarmiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO, endurgreiði stærstan hluta kostnaðarins á næstu 20 árum.
    Að öðru leyti er vísað til greinargerðar um viðkomandi stofnanir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er sett hámark á nýtingu þeirra lántökuheimilda sem kveðið er á um í sérlögum viðkomandi aðila. Er þetta í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 84/1985, um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sem hljóðar svo: „Sé í öðrum lögum en fjárlögum og lánsfjárlögum kveðið á um lántöku og ábyrgðarheimildir skal nýting þeirra ætíð vera innan þeirra marka sem sett eru í fjárlögum og lánsfjárlögum ár hvert.“ Um er að ræða eftirtalda aðila:
     Landsvirkjun. Áætlað er að Landsvirkjun taki lán að fjárhæð allt að 7.450 m.kr. á árinu 1993, þar af eru 6.720 m.kr. til þess að standa undir afborgunum eldri lána. Framkvæmdir eru áætlaðar samtals 730 m.kr. á næsta ári.
     Byggingarsjóður ríkisins. Gert er ráð fyrir að Byggingarsjóði ríkisins verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 2.290 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 2.785 m.kr. á þessu ári. Lækkunin stafar af minni lánveitingum en þær eru áætlaðar alls 420 m.kr. á næsta ári.
     Byggingarsjóður verkamanna. Byggingarsjóði verkamanna er heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 6.691 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 5.640 m.kr. á þessu ári. Hækkun lánsfjárþarfar stafar m.a. af auknum afborgunum af áður teknum lánum.
     Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins. Gert er ráð fyrir að heimila afgreiðslu húsbréfa fyrir allt að 12.000 m.kr. á árinu 1993 sem er sama fjárhæð og á yfirstandandi ári.
     Stofnlánadeild landbúnaðarins. Miðað er við að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 700 m.kr. á árinu 1993 og er það sama fjárhæð og á þessu ári.
     Byggðastofnun. Áform eru um það að heimila Byggðastofnun allt að 650 m.kr. lántöku á árinu 1993. Lántökur Byggðastofnunar eru áætlaðar 500 m.kr. á þessu ári. Þá skal þess getið að ríkissjóður yfirtók á sl. ári samtals 1.200 m.kr. af skuldum Byggðastofnunar sem léttir greiðslubyrði hennar verulega.
     Iðnlánasjóður. Lagt er til að Iðnlánasjóði verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 2.300 m.kr. á árinu 1993. Á árinu 1992 er áætlað að lántökur sjóðsins nemi samtals 1.600 m.kr. Aukning milli ára stafar aðallega af því að hærri afborganir af teknum lánum falla til á næsta ári.
     Iðnþróunarsjóður. Iðnþróunarsjóði er heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 700 m.kr. á árinu 1993 saman borið við 600 m.kr. á yfirstandandi ári. Iðnþróunarsjóður er nú sameign ríkissjóða Norðurlanda en sjóðurinn mun verða alfarið í eigu íslenska ríkisins í byrjun árs 1995 þar sem endurgreiðsla stofnfjárframlaga annarra ríkja Norðurlanda fer nú fram.
     Ferðamálasjóður. Ferðamálasjóði er heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 130 m.kr. á árinu 1993 og er það sama fjárhæð og sjóðnum er heimilað að taka að láni á yfirstandandi ári. Málefni sjóðsins eru til skoðunar í samgönguráðuneyti.
    Engin takmörk eru sett á ábyrgð ríkissjóðs á lántökum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sbr. 2. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, með áorðnum breytingum, önnur en þau sem þar koma fram.
    Landflutningasjóði er ekki ætluð lántaka á árinu 1993 enda starfsemi sjóðsins lítil. Málefni hans eru til skoðunar í samgönguráðuneyti.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1992 var ríkisábyrgð afnumin af öllum skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til eftir 1. mars 1992. Þannig er ekki sett þak á lántökur Fiskveiðasjóðs í 4. gr. frumvarpsins. Hins vegar bera lánskjör Fiskveiðasjóðs ótvírætt vitni þess að erlendir lánardrottnar telja að eignarhald ríkissjóðs á sjóðnum jafngildi fullri ríkisábyrgð. Því er í viðauka þessa frumvarps miðað við að lántökur Fiskveiðasjóðs verði eigi hærri en 2.500 m.kr. á næsta ári.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er fjármálaráðherra veitt heimild til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántökur sjálfstæðra aðila sem ekki hafa lántökuheimild í sérlögum, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Á árinu 1993 er gert ráð fyrir að veita þrjár almennar ríkisábyrgðir:
     Vatnsleysustrandarhreppur. Ráðgert er að veita Vatnsleysustrandarhreppi ábyrgð fyrir allt að 55 m.kr. láni til undirbúningsrannsókna við Flekkuvíkurhöfn á vegum Hafnamálastofnunar ríkisins.
     Norræni fjárfestingarbankinn. Gert er ráð fyrir að veita Norræna fjárfestingarbankanum ábyrgð fyrir allt að 22 m.kr. láni til verkefna á vegum Norrænu fjárfestingaráætlunarinnar fyrir Eystrasaltsríkin sem fjármálaráðherrar Norðurlandanna samþykktu sl. sumar. Þar sem hér er um áhættuverkefni að ræða þótti rétt að veita ríkisábyrgð á lántökum vegna þeirra til að rýra ekki lánstraust bankans á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
     Bæjarveitur Vestmannaeyja. Ráðgert er að veita Bæjarveitum Vestmannaeyja ábyrgð fyrir allt að 12 m.kr. láni til skuldbreytingar á lánum sem falla í gjalddaga á næsta ári.
Í 5. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, segir að fjármálaráðherra sé heimilt að taka lán í stað þess að veita ábyrgðir á veittum lánum þegar það þykir hagkvæmara. Slíkt hefur venjulega verið gert þegar um smærri og áhættusamari lántökur er að ræða.

Um 6. gr.


    Í viðauka þessa frumvarps kemur fram hvernig ráðgert er að skipta lántökum milli innlendra markaða og erlendra. Í því sambandi er innlend útgáfa markaðsverðbréfa talin til innlendrar lántöku en ógjörningur er að hafa eftirlit með endanlegum kaupendum þessara bréfa sérstaklega eftir að frjálsræði eykst í fjármagnsflutningum milli landa.
    Eins og getið var um að framan er stefnt að því að taka fyrir yfirdrátt ríkissjóðs í Seðlabankanum um næstu áramót. Þannig þyrfti ríkissjóður strax á næsta ári að mæta allri lánsfjárþörf sinni á markaði. Til að draga úr sveiflum á innlendum peningamarkaði við þessa breytingu er mikilvægt að fjármálaráðherra sé heimilt að víkja frá þeirri skiptingu á lántökum ríkissjóðs sem fram kemur í viðauka. Þá taka gildi á næsta ári reglur um frjálsa fjármagnsflutninga og þykir ástæða til að hafa þetta svigrúm verði verulegt fjárstreymi úr landinu. Sveigjanleiki í þessum efnum kann að vera nauðsynlegri nú en oft áður.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er fjármálaráðherra heimilað að samþykkja að þeir aðilar, sem njóta ríkisábyrgðar á lántökum sínum, endurfjármagni þær þegar hagstæðari kjör bjóðast, stofni til vaxta- eða skuldaskipta og nýti skammtímalánsform þegar það á við til þess að komast hjá áhrifum af vaxtasveiflum. Í síðasta liðnum felst m.a. heimild til þess að semja um hámark eða lágmark á breytilegum vöxtum.

Um 8. gr.


    Hér er áréttað ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, þar sem fram kemur að bera þurfi undir hana lánskjör á nýjum erlendum lánum, sbr. II. kafli þessa frumvarps, svo og lánabreytingar, sbr. 7. gr. þessa frumvarps. Með greininni er ætlað að tryggja að kjör á erlendum lánum þessara aðila séu ávallt í samræmi við það að þau beri ríkisábyrgð. Seðlabanki Íslands hefur annast þessa framkvæmd í umboði fjármálaráðherra og ekki er búist við að breyting verði á því að svo stöddu.

Um 9. gr.


    Í þessari grein segir að til lántöku viðkomandi aðila teljist yfirtekin lán, ábyrgðir veittar á lántökum þriðja aðila og milliganga um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila. Þetta er á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytis, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, eða annarra heimilda veittum einstaka fyrirtækjum. Þessar lántökur skulu rúmast innan heimildar sem tilgreind er í II. kafla frumvarpsins.

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um að erlendar fjárhæðir miðist við kaupgengi gjaldmiðla samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi lánsfjárlaga.

Um 11. gr.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 er gert ráð fyrir skerðingu á lögbundnum framlögum til ýmissa aðila og verkefna. Með þessari grein er mælt fyrir um að framlög ríkissjóðs samkvæmt viðkomandi lögum verði þess í stað ákveðin í fjárlögum 1993.

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.